14 Desember 2016 16:31

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir nóvembermánuð 2016 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og breytingar metnar út frá staðalfrávikum. Auk þess sem tölur það sem af er ári eru bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

 

Í nóvember voru skráðar 639 tilkynningar um hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynntum hegningarlagabrotum fækkaði talsvert á milli mánaða, en skráð voru 786 tilkynningar í október. Hegningarlagabrotunum fækkaði einnig miðað við þróun brota síðastliðna sex og 12 mánuði á undan. Skráðum þjófnuðum fækkaði einnig miðað við þróun brota síðastliðna sex mánuði á undan sem og minniháttar skemmdarverkum, fíkniefnabrotum og umferðarlagabrotum. Í nóvember bárust 94 tilkynningar um innbrot. Er það töluverð fjölgun á milli mánaða auk þess sem brotunum fjölgaði miðað við þróun brota síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan. Þar af fjölgaði innbrotum á heimili mest. Ölvunar akstursbrotum fjölgaði einnig miðaða við þróun brota síðustu mánuði á undan. Skráð voru 90 brot þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur. Ekki hafa verið teknir eins margir stútar síðan í nóvember 2013. En lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt úti sérstöku umferðareftirliti í lok nóvember.