24 Desember 2009 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendir landsmönnum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár. Árið sem nú er að líða hefur verið annasamt hjá lögreglunni og á hennar borð hafa komið ótal mál til úrlausnar, bæði stór og smá. Nokkrar breytingar voru gerðar á starfsemi embættisins og ber þar hæst að starfsemi lögreglustöðvanna í umdæminu var efld til mikilla muna. Í því felst m.a að sérstakt rannsóknarsvið tók til starfa á þeim öllum síðasta vor og frá og með haustinu voru sólarhringsvaktir gerðar út frá öllum þessum sömu lögreglustöðvum. Breytingarnar eru liður í að auka sýnilega löggæslu en það er eitt af helstu markmiðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Samhliða áðurnefndum breytingum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tóku fimm svokallaðir stöðvarstjórar til starfa. Þetta eru aðstoðaryfirlögregluþjónarnir Árni Þór Sigmundsson, Árni Vigfússon, Ólafur G. Emilsson, Ómar Smári Ármannsson og Sigurbjörn Víðir Eggertsson. Þeir eru í forsvari fyrir eftirtaldar lögreglustöðvar (svæðisstöðvar).
Lögreglustöð 1 – Hverfisgötu 113-115, Reykjavík – sími 444-1000. Sinnir verkefnum austan Snorrabrautar til vestan Elliðaáa. Stöðvarstjóri: Árni Vigfússon.
Lögreglustöð 2 – Flatahrauni 11, Hafnarfirði – sími 444-1140. Sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi. Stöðvarstjóri: Ólafur G. Emilsson.
Lögreglustöð 3 – Dalvegi 18, Kópavogi – sími 444-1130. Sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti. Stöðvarstjóri: Sigurbjörn Víðir Eggertsson.
Lögreglustöð 4 – Völuteigi 8, Mosfellsbæ – sími 444-1190. Sinnir verkefnum í Mosfellsbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Árbæ, Norðlingaholti, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Stöðvarstjóri: Árni Þór Sigmundsson.
Lögreglustöð 5 – Hverfisgötu 113-115, Reykjavík – sími 444-1000. Sinnir verkefnum vestan Snorrabrautar og á Seltjarnarnesi. Stöðvarstjóri: Ómar Smári Ármannsson.
Jafnframt þessu starfar miðlæg rannsóknardeild hjá embættinu en hún rannsakar stærri og flóknari sakamál, með aðstoð tæknideildar þegar svo ber undir. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar jafnframt alvarleg umferðarslys í umdæminu.
Lögreglustöðvunum á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi og í Langarima í Grafarvogi var lokað. Opnuð var lögreglustöð á Krókhálsi 5b í Árbæ en þar mun lögreglan væntanlega hafa aðstöðu út næsta ár og lengur ef þörf krefur. Í framtíðinni er áformað að opna nýja lögreglustöð á Skarhólabraut í Mosfellsbæ. Þegar það gengur eftir verður lögreglustöðvunum á Krókhálsi 5b og Völuteigi 8 í Mosfellsbæ lokað.
Sólarhringslöggæsla er á höfuðborgarsvæðinu alla daga ársins. Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu ber að hringja í 112.