30 Ágúst 2006 12:00

Kæruleysi ökumanna ríður ekki við einteyming. Þetta hefur margsýnt sig í sumar en daglega þarf lögreglan í Reykjavík að hafa afskipti af fólki fyrir að fylgja ekki settum reglum. Samt eru reglurnar einfaldar og ættu að vera öllum kunnar.

Á meðal þess sem ökumenn hirtu ekki um að virða í gær var að spenna beltin, tala aðeins í síma með handfrjálsan búnað og að halda sig á leyfilegum hámarkshraða. Þá var einn ökumaður stöðvaður fyrir að aka á nagladekkjum og annar ók niður hæðarslá.

Lögreglan stöðvaði líka ökumann fyrir framúrakstur en sá ók yfir óbrotna lína. Slíkt framferði er vítavert og setur vegfarendur í mikla hættu. Einnig brennur við að fólk hefur ökuskírteinið ekki meðferðis eða lætur hjá líða að endurnýja það. Slíkt tilfelli kom upp í gær en viðkomandi hafði auk þess ekki virt ákvæði um skoðun og því voru skrásetningarnúmer klippt af bifreið hans. Þá stöðvaði lögreglan ungan mann á vörubifreið en sá hafði ekki réttindi til að stjórna slíku ökutæki.