29 Desember 2011 12:00
Það voru ekki bara ökumenn sem lentu í vandræðum í nótt þegar snjónum kyngdi niður á höfuðborgarsvæðinu. Gangandi vegfarendur áttu líka erfitt með að komast leiðar sinnar en tveir menn lentu í talsverðum hrakningum í nótt. Annar þeirra fannst í snjóskafli í einu af úthverfum borgarinnar. Sá var í mjög annarlegu ástandi og fékk að hvíla sig i fangageymslu lögreglunnar þar til hann var orðinn ferðafær. Hinn var líka illa á sig kominn og átti erfitt með að standa í fæturna sökum ölvunar. Viðkomandi, sem var jafnframt ekki klæddur til útiveru, var ósáttur við afskipti lögreglu og var því tekinn með valdi og færður í lögreglubílinn. Eftir stutta stund náði maðurinn áttum og var honum síðan ekið til síns heima en þar skildi hann við lögregluna og var bara sæmilega sáttur með hennar störf.