24 Mars 2020 17:15

Nokkuð hefur verið um að kanínur hafi veikst og drepist í Elliðaárdal undanfarið, en bæði Matvælastofnun og Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum hafa unnið að rannsókn málsins. Á meðal líklegra skýringa er brátt veirusmit eða eitrun af einhverju tagi, en þó er ekkert sem bendir til eitrunar af völdum músa- eða rottueiturs, frostlagar eða salta vegna hálkuvarna. Engir áverkar hafa fundist á dýrunum. Þeir veirusjúkdómar sem helst geta leitt kanínur hratt til dauða eru smitandi lifrardrep og myxomaveirusýking. Báðir þessir veirusjúkdómar sýkja eingöngu kanínur. Öðrum dýrum eða fólki stafar ekki hætta af smiti.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar fylgist með kanínunum, kemur veikum dýrum til dýralæknis og hræjum í örugga eyðingu.

Matvælastofnun