13 Febrúar 2015 16:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í íbúð fjölbýlishúss í Kópavogi og lagði hald á 35 kannabisplöntur. Einnig var talsvert af búnaði haldlagt, en ræktunin var afar vel tækjum búin fyrir þessa starfsemi. Kona á fertugsaldri var handtekin í þágu rannsóknarinnar, en í öðru húsnæði sem hún hefur yfir að ráða var lagt hald á kannabisefni, ætlað amfetamín og fartölvur. Lögreglan stöðvaði einnig kannabisræktun í íbúð fjölbýlishúss í Breiðholti, en þar var að finna tæplega 20 kannabisplöntur og nokkra tugi gramma af tilbúnum kannabisefnum. Húsráðandi, karl á þrítugsaldri, var handtekinn á vettvangi. Talsvert af búnaði var tekið í vörslu lögreglu, en ræktunin var sömuleiðis vel búin tækjum.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu, dreifingu og framleiðslu fíkniefna, en lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.