23 Janúar 2015 19:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði umfangsmikla kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði á Seltjarnarnesi í gærkvöld. Við húsleit á áðurnefndum stað var lagt hald á rúmlega 500 kannabisplöntur, en tveir menn, annar á fertugsaldri og hinn á fimmtugsaldri, voru handteknir í þágu rannsóknarinnar. Þess má geta að sl.haust, í óskyldu máli, stöðvaði lögreglan einnig kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði á Seltjarnarnesi. Um var að ræða annað hús, en við sömu götu og kannabisræktunin fannst í gærkvöld.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.