5 Janúar 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í fjölbýlishúsi í austurborginni í gær. Við húsleit á áðurnefndum stað var lagt hald á 30 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Húsráðandi, karl um þrítugt, var handtekinn á staðnum og viðurkenndi hann aðild sína að málinu.

Ræktunaraðstaðan var í herbergi í íbúð mannsins en í því voru greinileg ummerki um bruna. Hann viðurkenndi að þar hefði kviknað í út frá rafmagni. Myndast hefði mikill reykur og ræktunartjaldið logað en maðurinn náði sjálfur að slökkva eldinn. Mildi þykir að ekki fór verr og í raun mikið happ að maðurinn var heima við þegar eldurinn kviknaði.

Eldhætta af þessari starfsemi er mikil og það er eitt af áhyggjuefnunum þegar kannabisræktun er annars vegar. Ekki síst sökum þess að kannabisræktun er nú æ oftar að finna í fjölbýlishúsum en sú óheillaþróun hófst fyrir nokkrum misserum. Við starfsemina eru notaðir ýmsir hlutir, t.d. lampar og viftur og iðulega er gengið illa frá þeim rafmagnstengingum sem notast er við. Ekki bætir úr skák að mikill raki er fylgifiskur kannabisræktunar og eykur það til muna hættu á íkveikjum. Þá eru þessar íbúðir, þar sem kannabisræktun fer fram, oftast mannlausar og því sjaldnast einhver viðstaddur ef eldur kviknar.