27 Apríl 2011 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í íbúð í fjölbýlishúsi í Breiðholti á skírdag. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust um 50 kannabisplöntur, flestar á lokastigi ræktunar, en þær vógu vel á annan tug kílóa. Íbúðin var mannlaus þegar lögreglan kom á vettvang en hún reyndist hafa verið tekin á leigu í þeim tilgangi einum að koma þar upp kannabisræktun. Haft var uppi á karli á þrítugsaldri og játaði hann aðild sína að málinu en upphaf þess má rekja til gestkomandi manns í blokkinni. Sá taldi sig finna kannabislykt á stigaganginum og hafði hann í kjölfarið samband við lögreglu.

Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.