21 Janúar 2010 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í íbúð í fjölbýlishúsi í Breiðholti í gærkvöld. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust um 90 kannabisplöntur og var megnið af þeim á lokastigi ræktunar. Karl á þrítugsaldri var handtekinn í tengslum við rannsókn málsins en tildrög þess voru þau að lögreglan var kölluð á vettvang vegna mikils vatnsleka og þurfti hún að brjóta sér leið inn í íbúðina. Innandyra fundust fyrrnefndar kannabisplöntur en hluti þeirra var í sérútbúnu, földu rými. Um var að ræða fullkomna vatnsræktun. Ljóst er að vatnsskemmdir eru allnokkrar, bæði í íbúðinni þar sem kannabisræktunin var en einnig í öðrum íbúðum hússins sem og sameign þess. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kom sömuleiðis á vettvang og dældi m.a. vatni af gólfi.