14 Desember 2012 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði í Garðabæ í fyrradag. Við húsleit á áðurnefndum stað var lagt hald á tæplega 50 kannabisplöntur á lokastigi ræktunar, en þær var að finna í földu rými á tveimur stöðum í húsinu. Plönturnar vógu næstum 40 kg og voru flestar að umfangi eins og meðal jólatré. Húsnæðið var mannlaust þegar lögreglan kom á vettangi, en húsráðandi, karl um þrítugt, kom akandi á staðinn skömmu síðar. Sá sneri snarlega við þegar hann sá lögregluna og ók á brott á miklum hraða. Manninum var veitt eftirför og náðist hann fljótlega. Viðkomandi var handtekinn, en við yfirheyrslu játaði hann aðild sína að málinu.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.