9 Maí 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í íbúð í fjölbýlishúsi í Kópavogi í dag. Við húsleit á áðurnefndum stað var lagt hald á 70 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Tvö af herbergjum íbúðarinnar voru sérstaklega útbúin fyrir þessa starfsemi. Húsráðandi, karl á fertugsaldri, var handtekinn á vettvangi og færður til yfirheyrslu. Hann hefur ekki áður komið við sögu hjá lögreglu.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.