10 Nóvember 2009 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í íbúð í fjölbýlishúsi í Kópavogi síðdegis í gær. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust rúmlega 20 kannabisplöntur og voru þær á lokastigi ræktunar. Íbúðin var mannlaus þegar lögreglan kom á vettvang en hún veit hver stendur að baki ræktuninni en það karl á þrítugsaldri. Sá hefur áður komið við sögu hjá lögreglu.

Lögreglan biður fólk um að hafa augun opin og koma upplýsingum um fíkniefnamál áfram á framfæri. Dæmi um að ekki sé allt með felldu geta verið nokkur og eitt þeirra er þegar íbúar finna lykt á stigagangi. Vatnshljóð getur líka verið vísbending og sömuleiðis ef byrgt er fyrir glugga. Sama á við ef það er raki í gluggum eða þeir opnir. Önnur hljóð sem geta fylgt þessari starfsemi eru t.d þau sem heyrast þegar hlutir eru færðir úr einum stað í annan. Í einhverjum tilvikum gætu heyrst hljóð eins og það væri verið að smíða. Vert er líka að gefa mannaferðum gaum og hvort sé verið að bera muni inn og út. Ef ekki er um fasta búsetu í íbúð að ræða getur sá sem hefur yfir henni að ráða ýmist komið daglega eða vikulega. Stundum eru þessar mannaferðir seint að kvöldlagi. Það sem hér hefur verið nefnt getur líka átt við um þessa starfsemi þegar hún fer fram annars staðar, t.d. í iðnaðarhúsnæði.

Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.