8 Febrúar 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í skrifstofuhúsnæði í Kópavogi í gær. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust tæplega 80 kannabisplöntur, flestar á lokastigi ræktunar, og um 1,4 kg af marijúana.

Upphaf málsins má rekja til tilkynningar um vatnsleka í tilteknu rými í fyrrnefndu húsi. Tilkynnandi hafði sjálfur knúið árangurslaust dyra þar sem ræktunina var að finna en viðkomandi var þess fullviss að einhver væri innandyra. Þegar lögreglan kom á vettvang fann hún strax kannabiskeim í anddyri hússins og sömuleiðis mátti heyra umgang úr umræddu rými en þaðan lagði líka mikla kannabislykt. Farið var inn í þennan hluta hússins en þá blasti við karl á fertugsaldri og var hann með klippurnar í hendinni en maðurinn var að klippa niður plöntur til þurrkunar. Ekki verður annað sagt en húsnæðið hafi verið mjög rúmgott en ræktunin, sem vóg tæplega 20 kg, var bæði öflug og fullkomin. Málið telst upplýst.