23 Október 2006 12:00
Sextíu og einn ökumaður var tekinn fyrir hraðakstur í borginni um helgina. Í nokkrum tilfellum var um ofsaakstur að ræða og það er mjög miður, svo ekki sé meira sagt, að fólki skuli haga sér með þessum hætti. Ekki síst í ljósi umræðunnar undanfarnar vikur og mánuði. Lögreglan í Reykjavík mun engu að síður ekki láta sitt eftir liggja og leggur höfuðáherslu á að ná til ökufantanna hvar sem til þeirra næst.
Einn ökufantanna var tekinn í austurbænum en hann mældist á 157 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 80 km/klst. Fullvíst er talið að viðkomandi hafi verið í kappakstri en ökumaðurinn, sem er liðlega 17 ára piltur, reyndist hafa verið sviptur ökuleyfi þegar að var gáð. Í kappakstrinum missti hann stjórn á ökutækinu sem snerist í tvo hringi og stöðvaðist á öfugum vegarhelmingi. Mildi þykir að ökumaðurinn skyldi hvorki stórslasa sjálfan sig né aðra nærstadda.
Fáeinum klukkutímum síðar var karlmaður á þrítugsaldri tekinn fyrir hraðakstur í vesturbænum. Sá var á 133 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 50 km/klst. Það þykir nokkuð ljóst að hann var líka í kappakstri. Þriðji og síðasti ökufanturinn sem er nefndur hér til sögunnar var mældur á 146 km hraða. Sá ók á þessum ofsahraða á einni af stofnbrautum borgarinnar.