31 Ágúst 2023 09:10

Lögreglan á Suðurlandi hefur frá 27. apríl sl. haft til rannsóknar andlát ungrar konu sem fannst látin í heimahúsi á Selfossi þann dag. Karlmaður sem handtekinn var á vettvangi var í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald, sem hefur verið framlengt endurtekið síðan, nú síðast með úrskurði sem gilti til 31. ágúst.

Karlmaðurinn er grunaður um að hafa orðið valdur að bana konunnar, en rannsóknin hefur verið mjög umfangsmikil. Í gær gerði lögreglustjóri kröfu fyrir Héraðsdómi Suðurlands um að karlmaðurinn yrði úrskurðaður í farbann í stað frekara gæsluvarðhalds. Sú ákvörðun byggir á því mati lögreglu að ekki standi lengur skilyrði til gæsluvarðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Héraðsdómur Suðurlands féllst í gærkvöldi á kröfu lögreglustjóra og úrskurðaði karlmanninn í farbann til 1. desember nk. Rannsókn málsins er enn í fullum gangi.