25 September 2007 12:00

Eins og flestir vita sinnir lögreglan ýmsum verkefnum, bæði stórum sem smáum, og laganna verðir þurfa jafnan að vera við öllu búnir. Í síðustu viku hringdi karl á þrítugsaldri í lögreglu um miðja nótt og óskaði eftir skjótri aðstoð. Maðurinn, sem býr í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði, sagði að tveir kettir hefðu hreiðrað um sig í rúmi hans og létu mjög ófriðlega.

Samstundis var brugðist við þessum tíðindum og lögreglumenn voru fljótir á vettvang. Þegar að var komið hafði húsráðandi hrökklast út á svalir en kettirnir voru enn innandyra. Útidyrahurðin var auðvitað harðlæst og því snöruðust lögreglumennirnir upp á svalir og fóru þaðan inn í íbúðina. Í svefnherberginu mættu þeir köttunum sem voru nú komnir undir rúmið. Dýrin báru lita virðingu fyrir laganna vörðum og hvæstu sem mest þau máttu. Kettirnir urðu þó fljótt að játa sig sigraða enda voru þeir ofurliði bornir af lögreglumönnum sem voru auk þess vopnaðir kústsköftum. Kettirnir voru hraktir út í náttmyrkið og hefur ekkert spurst til þeirra síðan.

Húsráðandi var að vonum glaður þegar kettirnir voru á bak og burt og ekki er annað vitað en að hann hafi sofið vel það sem eftir lifði nætur.