23 Janúar 2020 14:55

Þann 3. október 1994 fannst hluti af höfuðkúpu manns á sandeyrum Ölfusáróss, norðan s.k. Nauteyratanga. Á kúpuna vantaði neðri kjálkann og einungis ein tönn var í efri góm.     Farið var með kúpuna til rannsóknar hjá Kennslanefnd ríkislögreglustjóra og á hennar vegum gerðar þær skoðanir og mælingar sem unnt var m.v. tækni þess tíma.   Ekki tókst að bera kennsl á það hverjum umrædd höfðukúpa tilheyrði og var hún því sett í geymslu.

Í lok mars á síðasta ári var ákveðið að reyna á ný og var tekið sýni úr kúpunni til aldursgreiningar.   Niðurstaða þeirrar rannsóknar barst í haust og í ljós kom að beinin voru að líkindum frá árunum um og eftir 1970.   Þá var þess freistað að ná nothæfu DNA sýni úr kúpunni og var það sent rannsóknarstofu í Svíþjóð til greiningar.   Niðurstaða úr þeirri greiningu barst svo nú í janúar og þá kom í ljós að um var að ræða höfuðkúpu Jóns Ólafssonar sem fæddur var 8. júlí 1940 og er talinn hafa fallið í Sogið á aðfangadag 1987. Börnum Jóns hefur verið kynnt þessi niðurstaða og munu þau fá þessar jarðnesku leyfar föður síns á allra næstu dögum.

Lögreglan á Suðurlandi hefur undanfarin ár tekið DNA sýni úr aðstandendum þeirra sem taldir eru hafa horfið í umdæminu á liðnum árum og hafa ekki fundist.   Enn er eftir að fá sýni frá nokkrum einstaklingum og verður þeirri vinnu haldið áfram á þessu ári.   Lögreglumönnum við þessa vinnu hefur verið afar vel tekið af þeim sem leitað hefur verið til. Sýnin sem tekin eru eru vörsluð í gagnabanka þar sem unnt verður að bera þau saman við DNA snið þeirra sem finnast, hvort sem það er í okkar tíð eða komandi kynslóða.