25 Maí 2018 18:00
Þann 8. mars 2017 var lögreglu tilkynnt um hvarf Arturs Jarmoszko, sem hafði horfið sporlaust þann 1. mars sama ár. Lögregla hóf strax leit, skoðaði síma og tölvugögn og ræddi við fjölskyldu og vini Arturs. Lögregla hafið mjög takmarkaðar upplýsingar til að vinna eftir og bar leit ekki árangur. Þann 23. febrúar 2018 var lögreglu tilkynnt um líkamsleifar sem skipverjar línuskips, sem var við veiðar á Faxaflóa, fundu. Við rannsókn réttarmeinafræðings komu fram atriði sem bentu til að þar væri að finna líkamsleifar Arturs. Þar sem að um línuskip var að ræða lágu fyrir afar nákvæmar upplýsingar um það hvar líkamsleifarnar fundust. Því var strax byrjað að meta hvernig hægt væri að rannsaka sjávarbotninn á svæðinu nánar. Þann 8. mars 2018 var lagt upp í leiðangur á varðskipinu Tý, en afar margir komu að leiðangrinum en fyrir utan áhöfn Týs komu einstaklingar frá kafardeild Landhelgisgæslu, kafardeild ríkislögreglustjóra, starfsmaður frá Teledyne og Árni Kópsson kafari.
Tilgangur leiðangurs var að leita svæðið með Gavia kafbát Teledyne til að reyna að finna líkamsleifar. Til að gefa hugmynd um stærð leitarinnar þá var leitarsvæðið 180 metra langt og 60 metra breitt – en þar sem svæðið var á 120 metra dýpi er slíkt afar erfitt og tæknilega flókið. Teknar voru 18 þúsundir myndir. Í kjölfarið hófst vinna við greiningu á þeim, en sú greining leiddi af sér að greina mátti hlut af gæti verið líkamshluti. Þann 12 – 15.3 2018 var farið í annan leiðangur til að endurheimta líkamsleifar af sjávarbotni og gekk það eftir. Eftir rannsókn réttarmeinafræðings, þar á meðal DNA rannsókn, var sýnt fram á að líkamsleifarnar tilheyra Artur Jarmoszko. Engin merki voru um áverka á líkamshlutunum sem fundust. Fjölskyldu Arturs hefur verið tilkynnt um lyktir leitarinnar.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill koma til leiðar miklu þakklæti fyrir aðstoð í málinu, þar á meðal allra sem getið hefur verið hér að ofan, en ekki síst björgunarsveitum sem komu að málinu. Fjölskylda Arturs bað um að komið yrði á framfæri að þau óskuðu þess að þeim yrði hlíft við fyrirspurnum vegna málsins og leyft að syrgja Artur í næði.