26 September 2006 12:00

Ekki var umferðin óhappalaus í gær en lögreglunni bárust talsvert af tilkynningum um árekstra. Í flestum tilfellum fór betur en á horfðist og engin alvarleg slys urðu á fólki. Eitthvað var um eignatjón en það allra leiðinlegasta í slíkum tilvikum er þegar tjónvaldurinn forðar sér af vettvangi. Nokkuð er um þannig ökumenn og einn slíkur var í umferðinni síðdegis í gær.

Sá keyrði bíl sem hafnaði aftan á öðrum svo að tjón hlaust af. Ekki virtist umræddum ökumanni mjög umhugað um bílinn sem hann keyrði á né heldur þann sem ók þeim bíl. Tjónvaldurinn forðaði sér í burtu og vonaðist sjálfsagt til að komast upp með athæfið. 

Ekki er víst að þessum ófyrirleitna ökumanni verði að ósk sinni. Lögreglan í Reykjavík fékk skrásetningarnúmer bílsins í sínar hendur og fann ökutækið nokkru síðar. Þá var reyndar búið að fjarlægja skrásetningarnúmerin af bílnum en vonir standa til að hinn seki verði látinn svara fyrir gjörðir sínar.