23 Ágúst 2022 16:44

Rannsókn lögreglu á innflutningi á miklu magni af fíkniefnum miðar vel, en eins og fram hefur komið er um að ræða tæplega 100 kg af kókaíni sem var falið í vörusendingu á leið til landsins. Fíkniefnin voru í gámi á leið til Íslands frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi. Íslensk og hollensk löggæsluyfirvöld áttu í náinni samvinnu vegna þessa, en kókaínið fannst í Hollandi við leit tollvarða í timbursendingu. Grundvöllur leitarinnar ytra voru upplýsingar frá íslenskum löggæsluyfirvöldum, byggðar á frumkvæðisrannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi, um grun þess efnis að mikið magn kókaíns væri að finna í gámnum. Eftir að fíkniefnin fundust og voru haldlögð var gerviefnum komið fyrir í gámnum. Einn maður var síðan handtekinn eftir að hafa fjarlægt gerviefnin úr vörusendingunni hér heima, auk þriggja annarra sem taldir eru tengjast málinu. Fjórmenningarnir voru allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald í byrjun mánaðarins og gæsluvarðhaldið var síðan framlengt yfir þremur þeirra til 14. september, en sá fjórði var færður í afplánun vegna annarra mála.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Meðfylgjandi eru myndir af kókaíninu sem fannst í Hollandi.