7 Nóvember 2013 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur frá því í sumar heimsótt tæplega 100 vinnustaði í umdæminu og kannað hvort atvinnuleyfi starfsmanna væru í lagi. Skemmst er frá því að segja að svo hefur verið í nær öllum tilfellum og ástand mála því almennt mjög gott, en skráðar hafa verið niður upplýsingar um 310 erlenda starfsmenn. Gerðar voru athugasemdir við fjóra starfsmenn. Þrír þeirra höfðu atvinnuleyfi, en ekki á þeim stöðum þar sem þeir voru við vinnu. Fjórði starfsmaðurinn reyndist ekki hafa atvinnuleyfi hér á landi, en tekið skal fram að fjórmenningarnir voru við störf á jafnmörgum stöðum. Mál þeirra og vinnuveitenda þeirra eru í rannsókn hjá lögreglu.

Í þessum aðgerðum lögreglu hefur hún heimsótt veitinga- og skemmtistaði, fiskvinnslur, efnalaugar, þvottahús og bifreiðaverkstæði.