27 Maí 2013 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heimsótti 46 veitingastaði í miðborginni sl. fimmtudagskvöld, en tilgangurinn var að kanna hvort atvinnuleyfi starfsmanna væru í lagi. Svo reyndist vera í nær öllum tilfellum og ástand mála því almennt gott. Gerðar voru athugasemdir við þrjá starfsmenn. Tveir þeirra höfðu atvinnuleyfi, en ekki á þeim stöðum þar sem þeir voru við vinnu á fimmtudagskvöldið. Þriðji starfsmaðurinn reyndist ekki hafa atvinnuleyfi hér á landi, en tekið skal fram að þremenningarnir voru við störf á jafnmörgum stöðum. Í aðgerðum lögreglunnar voru skráðar niður upplýsingar um hátt í 300 einstaklinga, en 5% þeirra eru frá löndum utan EES.