10 Mars 2010 12:00

Heldur sjaldgæft er að menn krefjist þess að vera vistaðir í fangageymslu lögreglunnar. Sú var þó raunin þegar lögreglan var kölluð til í fjársvikamáli á höfuðborgarsvæðinu. Þar hafði karl um fimmtugt neitað að greiða fyrir þjónustu sem hann hafði sannarlega notið. Lögreglan reyndi að leysa málið á vettvangi því aðilinn sagðist vera með fjármuni meðferðis og því borgunarmaður fyrir reikningnum. Maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, stóð hinsvegar áfram fast á sínu og harðneitaði að borga. Fór svo að hann var fluttur á lögreglustöð en þess hafði maðurinn óskað og jafnframt að hann yrði vistaður í fangaklefa. Til þess kom þó ekki enda ónauðsynlegt að hafa manninn í haldi og var honum gert að halda sína leið. Gekk það treglega og þurfti að beita fortölum. Að lokum yfirgaf maðurinn lögreglustöðina, allt annað en sáttur með þessi málalok.