10 Nóvember 2006 12:00

Nokkuð er um að kvartanir berist lögreglunni í Reykjavík vegna merkinga verktaka á og við vinnusvæði. Undanfarið hafa staðið yfir framkvæmdir víðsvegar um borgina og ljóst þykir að ekki standa allir verktakar sig jafn vel þegar kemur að merkingum. Þetta á ekki síst við um gatnaframkvæmdir. Algengt er að nota keilur við minniháttar framkvæmdir. Þeim er ætlað að varna ökumönnum frá því að aka ákveðna leið. Það vill hins vegar brenna við að á þær sé ekið og þær felldar um koll en það skapar auðvitað hættu fyrir þá sem á eftir koma. Eins kemur það stundum fyrir að óprúttnir aðilar gera sér það að leik að fjarlægja keilurnar.

Ekki er vitað hvort þessar skýringar eiga við um óhapp sem varð í austurbænum nýverið. Þá varð ökumaður fyrir því óláni að aka ofan í holu á fjölfarinni umferðargötu. Við það skemmdust tveir hjólbarðar á bílnum en af þessu hlutust nokkur óþægindi fyrir ökumanninn. Sannað þótti að í þessu tilfelli var merkingum ábótavant, hverju sem um var að kenna.

Lögreglunni berast líka kvartanir vegna frágangs. Þá þykir íbúum stundum sem verktakar séu seinir að fjarlægja tæki og tól sem og annað sem þeir nota við framkvæmdirnar. Ónefndur íbúi hringdi í lögregluna á dögunum og benti á, að þrátt fyrir að framkvæmdum væri löngu lokið í götunni hans væri enn eftir að reisa við staurinn með götuheitinu. Viðkomandi var bent á að snúa sér til borgaryfirvalda.

.