12 Apríl 2007 12:00
Heldur illa tókst til við eldamennskuna á tveimur heimilum á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld. Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um reyk sem barst frá íbúð fullorðinnar konu í Hlíðahverfi. Þegar að var komið var konan hvergi sjáanleg en hún mun hafa brugðið sér frá. Reykurinn kom hinsvegar frá potti á eldavél. Íbúðin var reykræst. Skömmu síðar var tilkynnt um reyk sem barst frá íbúð í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði. Þar hafði húsráðandi skroppið frá en á meðan brunnu við franskar kartöflur sem voru í eldföstu móti í ofni. Skemmdir voru litlar sem engar.
Um svipað leyti kviknaði í rafmagnstöflu í einbýlishúsi í miðborginni en þar fór líka betur en á horfðist. Og skömmu fyrir miðnætti var tilkynnt um eld í bíl í vesturhluta borgarinnar. Tjónið er talsvert en eldsupptök er ókunn.