2 Febrúar 2018 16:30

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið til ítarlegrar skoðunar hvað kunni að hafa farið úrskeiðis þegar dróst á langinn að hefja rannsókn á ætluðum kynferðisbrotum karlmanns, sem tilkynnt var um í sumarlok 2017. Sýnt þykir að mistök hafi verið gerð og harmar embættið að sú hafi verið raunin. Jafnframt er unnið að frekari greiningu á þeim 170 málum sem nú eru til meðferðar og rannsóknar hjá kynferðisbrotadeild LRH, ekki síst m.t.t. forgangsröðunar. Skipaðir hafa verið tveir hópar hjá embættinu tll að sinna þessu verki undir stjórn Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns og tengslafulltrúa Íslands hjá Europol.

Rannsókn málsins, sem vísað var til hér að framan, miðar vel. Maðurinn var handtekinn í síðasta mánuði og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði í dag í Héraðsdómi Reykjaness fram áframhaldandi kröfu um gæsluvarðhald yfir honum á grundvelli rannsóknar- og almannahagsmuna. Héraðsdómur féllst á kröfuna á grundvelli rannsóknarhagsmuna og situr maðurinn því áfram í varðhaldi til 9. febrúar. Þess má geta að 39 manns hafa komið í skýrslutöku hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknarinnar, þar af sjö brotaþolar.