8 Október 2019 20:26

Karlmaður á fertugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í tíu daga gæsluvarðhald, eða til 18. október, á grundvelli rannsóknar- og almannahagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á ætluðu kynferðisbroti, líkamsárás og heimilisofbeldi. Maðurinn var handtekinn um hádegisbil í gær, en tilkynning um málið barst í gærmorgun. Lögreglan fór þegar á vettvang í húsnæði í vesturhluta borgarinnar og hitti þar fyrir brotaþola, sem var fluttur á slysadeild. Maðurinn var þá hvergi sjáanlegur, en hann fannst svo eftir leit í íbúð í öðru hverfi borgarinnar og var þá handtekinn eins og áður sagði.