8 Ágúst 2008 12:00

Lækjargötu í Reykjavík verður lokað frá Skólabrú að Geirsgötu frá klukkan sex í fyrramálið og fram eftir degi, laugardaginn 9. ágúst. Það er gert vegna Hinsegin daga sem þá verða haldnir hátíðlegir. Reynt verður að halda öðrum lokunum í lágmarki og því ættu viðskiptavinir verslana og þjónustufyrirtækja við Laugaveg og Bankastræti að komast leiðar sinnar fyrir og eftir skemmtigönguna sem er á dagskrá eftir hádegi. Hún fer frá Hlemmi kl. 14 og niður Laugaveg og Bankastræti að Arnarhól um Lækjargötu. Fyrrnefnd gönguleið er að sjálfsögðu lokuð fyrir almenna umferð á meðan skemmtigöngunni stendur.

Sem fyrr beinir lögreglan þeim tilmælum til fólks að það noti bílastæði í nágrenni miðborgarinnar. Sömuleiðis er bent á bílastæðahús að ógleymdum strætó en hann er ávallt upplagt að taka. Þeir sem leggja ökutækjum sínum næst gönguleiðinni mega búast við einhverjum umferðartöfum. Gert er ráð fyrir töluverðum fjölda gesta í miðborginni á morgun.