19 Desember 2006 12:00

Af einhverjum ástæðum eiga sumir ökumenn erfitt með að virða umferðarreglur. Stundum er eins og óhapp þurfi til að menn nái áttum og læri sína lexíu. Jafnvel það dugar ekki til í ákveðnum tilfellum. Þannig virðist því t.d. farið í málum 19 ára ökumanns sem lögreglan í Reykjavík stöðvaði um helgina. Bíll hans mældist á 148 km hraða á Sæbraut en leyfður hámarkshraði þar er 60. Akstur ökumannsins unga var vítaverður en hann lagði bæði sjálfan sig og aðra vegfarendur í mikla hættu. Að auki var bíll piltsins fullur af fólki í bókstaflegri merkingu en einum farþega var ofaukið í ökutækinu.

Dæmið um þennan unga ökumann er rifjað upp hér því hann hefur áður verið tekinn fyrir ofsaakstur af þessu tagi. Þá mældist bíll hans á 150 km hraða á vegarkafla þar sem leyfður hámarkshraði er 80 og því er brot hans um helgina grófara ef eitthvað er. Í fyrra skiptið var ökumaðurinn einn á ferð sem betur fer. Þá lauk ökuferð hans utan vegar eftir ofsaakstur um nokkrar götur borgarinnar. Þess má geta að ökumaðurinn sem hér um ræðir hefur fleiri umferðarlagabrot á samviskunni. Það nýjasta mun kosta hann að lágmarki ökuleyfissviptingu í þrjá mánuði og 110 þúsund króna sekt.

Engu að síður getur þessi ökumaður hrósað happi. Ennþá hefur hann engan slasað í umferðinni. Haldi hann hins vegar uppteknum hætti er ljóst að það endar með skelfingu og þá verður skaðinn óbætanlegur.