11 Nóvember 2011 12:00

Um 10 kg af amfetamíni reyndust vera falin í gámi sem kom með skipi í Straumsvíkurhöfn í síðasta mánuði. Við leit lögreglu og tollgæslu í gámnum fundust einnig um 200 grömm af kókaíni, rúmlega 8 þúsund e-töflur og verulegt magn af sterum, bæði í töflu- og vökvaformi. Skipið kom hingað frá Rotterdam í Hollandi.

Rannsókn málsins hefur staðið yfir í alllangan tíma og hefur verið unnin í samvinnu við tollgæsluna. Tveir karlar sitja í gæsluvarðhaldi í tengslum við málið en þeir eru á fimmtugs- og sextugsaldri. Sá yngri hefur áður komið við sögu hjá lögreglu.