26 September 2013 12:00

Alls voru fimmtán karlar handteknir í aðgerðum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Kópavogi í morgun. Þeir voru færðir til yfirheyrslu hjá lögreglu, en nokkrum þeirra hefur þegar verið sleppt úr haldi. Líklegt þykir að hinir losni einnig úr haldi lögreglu þegar líður á daginn, en rannsókn málsins miðar vel. Mennirnir eru allir af erlendu bergi brotnir og eru enn fremur með stöðu hælisleitenda.

Eins og fram hefur komið var lagt hald á muni og lítilræði af fíkniefnum í aðgerðum lögreglunnar. Einn mannanna hefur játað eign sína á fíkniefnunum og telst sá hluti málsins upplýstur. Á meðal muna sem lögreglan tók í sína vörslu eru eggvopn, sem eru talin brjóta í bága við vopnalöggjöf.

Við aðgerðirnar í morgun naut lögreglan aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og fíkniefnaleitarhunda frá tollinum.