8 Febrúar 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann 300 grömm af amfetamíni við húsleit í íbúð í Hafnarfirði á föstudag og lagði jafnframt hald á verulega fjármuni, eða um eina og hálfa milljón króna. Amfetamínið var ætlað til sölu og þá voru peningarnir tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Tveir karlar á fertugsaldri voru handteknir í þágu rannsóknarinnar. Þeir voru reyndar ekki gripnir á vettvangi heldur á bensínstöð í sama bæjarfélagi skömmu áður. Húsleitin var hins vegar framkvæmd í kjölfar handtökunnar en við leitina naut lögreglan aðstoðar fíkniefnaleitarhunda frá tollinum.

Fyrrnefnd aðgerð er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.