4 September 2014 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt hald á um 6 kg af marijúana í nokkrum aðskyldum málum undanfarna daga. Framkvæmdar hafa verið húsleitir í Hafnarfirði, Reykjavík og Kópavogi, en auk marijúana hefur lögreglan tekið í sína vörslu neysluskammta af amfetamíni, um 100 gr. af kannabisefnum, kannabisplöntur og ýmsa muni sem grunur leikur á að séu þýfi. Mest af marijúana var að finna við húsleit í íbúð fjölbýlishúss í Kópavogi, eða rúmlega 3,5 kg, en hluti þess var í geymslu sem tilheyrði íbúðinni. Húsráðandi, karl á fertugsaldri, var handtekinn í þágu rannsóknarinnar. Í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði fann lögreglan tæplega 1,5 kg af marijúana og var karl á fertugsaldri handtekinn í tengslum við málið. Í öðru fjölbýlishúsi í Hafnarfirði var lagt hald á nærri 1 kg af marijúana og var karl á þrítugsaldri handtekinn í þágu rannsóknarinnar.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.