28 September 2007 12:00

Karl á fertugsaldri var stöðvaður við akstur á Reykjanesbraut í Garðabæ í morgun. Hann var skilríkjalaus en gaf lögreglu góðfúslega upp allar helstu upplýsingar, þ.e. nafn, kennitölu og heimilisfang. Ekki þótti ástæða til að efast um frásögn mannsins en til öryggis var tekin af honum mynd á staðnum. Við svo búið hélt maðurinn sína leið en við eftirgrennslan á lögreglustöð kom í ljós að hann hafði gefið upp nafn annars manns. Lögreglunni tókst þó fljótt að hafa uppi á lygaskjóðunni sem viðurkenndi að hafa villt á sér heimildir. Kom þá einnig í ljós að viðkomandi hafði þegar verið sviptur ökuleyfi og hafði jafnframt einu sinni áður verið tekinn réttindalaus undir stýri. Hinn ósannsögli ökumaður var fullur iðrunar en hætt er við að það komi að litlu gagni en maðurinn á háa sekt yfir höfði sér.