5 September 2015 19:47
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sett fram þau tilmæli að flygildum verði ekki flogið í Laugardalnum á morgun, sunnudaginn 6. september, frá kl. 16.45 til 24. Nánar tiltekið er um að ræða knattspyrnuleikvanginn og 500 metra radíus í kringum hann. Þetta er gert til að gæta öryggis áhorfenda og leikmanna, en beiðni þess efnis barst lögreglu frá Knattspyrnusambandi Íslands. Tilkynning lögreglustjóra vegna málsins fylgir hér að neðan.
Til þeirra er hlut kunna að eiga að máli varðandi flug ómannaðra loftfara á landsleik Íslands og Kasakstan sunnudaginn 6. september 2015
Knattspyrnusamband Íslands hefur í dag, laugardaginn 5. september 2015, óskað eftir því að flug flygilda (dróna) í 500 metra radíus frá Laugardalsvelli verði bannað frá 16:45 – 24:00 á morgun, sunnudaginn 6. september, vegna landsleiks Íslands og Kasakstan í undankeppni Evrópumóts landsliða 2016.
Óskin er sett fram vegna öryggis áhorfenda og leikmanna og einnig vegna tilmæla frá Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA) varðandi öryggi vegna framkvæmdar landsleikja.
Ekki er að finna ákvæði í loftferðalögum nr. 60/1998 sem banna umferð flygilda á mannamótum, en samkvæmt 4. grein laganna hefur ráðherra heimild til að takmarka eða banna loftferðir, almennt eða að hluta, á íslensku yfirráðasvæði eða yfir því, vegna almannaöryggis eða allsherjarreglu.
Þá er í lögreglulögum nr. 90/1996 að finna ákvæði í 1. grein, þar sem m.a. kemur fram að lögregla skuli koma í veg fyrir að öryggi borgaranna sé raskað.
Komið hafa upp tilvik þar sem flygildi hafa bilað og valdið hættu. Búist er við miklum fjölda gesta á Laugardalsvelli á þeim tíma sem um ræðir og mikilvægt að öryggis þeirra sé gætt. Þá hafa komið fram tilmæli frá Knattspyrnusambandi Evrópu sama efnis.
Lögreglustjóri hefur ekki heimild til að banna flug flygilda en setur fram þau tilmæli að flygildum verði ekki flogið í 500 metra radíus frá Laugardalsvelli á þeim tíma sem um ræðir, þ.e. frá 16.45-24.00 sunnudaginn 6. september 2015.
Virðingarfyllst,
Sigríður Björk Guðjónsdóttir,
lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.