6 September 2015 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minnir knattspyrnuáhugamenn, sem ætla á landsleik Íslands og Kazakstan á Laugardalsvelli í dag kl. 18.45, á að leggja tímanlega af stað og að sjálfsögðu að leggja löglega. Uppselt er á leikinn og viðbúið að mikil umferð verður í Laugardalnum og nágrenni hans. Lögreglan sendir sömu skilaboð til knattspyrnuáhugamanna, sem ætla að mæta á Ingólfstorg og fylgjast með leiknum í beinni útsendingu á risaskjá. Þar má líka búast við fjölmenni og er fólk hvatt til að ganga hægt um gleðinnar dyr og þannig tryggja að allir geti notið stundarinnar, ungir ekki síður en hinir sem eldri eru. Þess vegna minnum við fólk á að neyta ekki áfengis í óhófi og sömuleiðis að bera ekki áfengi út af veitingastöðum, en slíkt er með öllu óheimilt. Lögreglan verður við eftirlit og til aðstoðar, bæði í Laugardalnum og á Ingólfstorgi, en fram undan er söguleg stund í íslenskri knattspyrnu.
Áfram Ísland!