16 Desember 2022 11:14

Lögreglan á Suðurlandi hóf um kl. 17:00 í gær eftirgrenslan eftir rúmlega tvítugum karlmanni að beiðni aðstandenda hans í Árnessýslu.   Björgunarsveitir voru síðan kallaðar út til aðstoðar við leit um kl. 19:20 og um kl. 22:00 fundu björgunarsveitarmenn bifreið mannsins yfirgefna niður undir sjó í Þykkvabæjarfjöru.

Leitað var með drónum, gangandi og með sporhundum nokkuð stórt svæði í kring um bílinn og svæðið milli Þjórsár og Hólsár inn í landið og fjöruleit beggja vegna við það svæði.  Þá aðstoðaði þyrla Landhelgisgæslu við leitina en varð frá að hverfa vegna bilunar áður en leit lauk en henni var hætt um kl. 02:00 í nótt.

Leit hófst á ný í birtingu í morgun og stefnt er að því að leita fjörur frá Þorlákshöfn austur eftir Suðurströndinni a.m.k. að ósum Markafljóts en einnig verður svæðið milli Þjórsár og Hólsár upp að bæjum í Þykkvabæ leitað sérstaklega.   Aðstæður til leitar eru að því leiti góðar að jörð er frosin þannig að vart markar í eftir tæki leitarmanna og því hægt að sinna leitinni á fjórhjólum,  bílum eða buggy bílum.   Þá hafa stór svæði verið leituð og verða í dag með drónum björgunarsveitanna.