15 Mars 2022 12:15
Þann 8. mars s.l. voru björgunarsveitir kallaðar út vegna tveggja ferðamanna á gönguskíðum sem sendu út neyðarboð með staðsetningarbúnaði. Staddir vestan Sylgjujökuls sem gengur til vesturs úr Vatnajökli. Mikill viðbúnaður var og tóku 123 einstaklingar frá björgunarsveitum þátt í aðgerðinni sem heppnaðist vel, ferðalangarnir, franskir, báðir fæddir 1995 fundust þar sem þeir höfðu grafið sig í fönn. Þeir voru orðnir mjög kaldir en gátu þó borið sig um og fljótlega tókst að ná í þá hita. Þyrla LHG flutti þá til byggða. Vanir ferðamenn að sögn, reyndust ágætlega búnir og höfðu skilið eftir ferðaáætlun hjá Safetravel.
Í gær var aftur kallað til leitar vegna einstaklings sem sendi neyðarboð með staðsetningu austan og norðan Mýrdalsjökuls, skammt frá s.k. Öldufellsleið. Sá var einnig á gönguskíðum og dró sleða á eftir sér. Ekki var fært fyrir flug í byrjun aðgerðar og fóru að þessu sinni sleðamenn, snjóbílar og jeppar úr mismunandi áttum að útgangspunkti leitarinnar til að tryggja árangur. Fyrstu bjargir komnar á vettvang upp úr kl. 20:00 Maðurinn fannst undir miðnættið, kaldur en bar sig vel. 283 leitarmenn skráðir í aðgerðina. Þegar maðurinn fannst var þyrlan á leiðinni á vettvang með leitarhunda og flutti hún manninn til aðhlynningar en búnaður hans fór með björgunarsveitarmönnum til byggða. Sagður vanur ferðamaður og sæmilega búinn.
Liðin vika var fremur róleg hjá lögreglu á Suðurlandi. Skráð eru 266 eftirlitsverkefni og af þeim 160 með umferð, 86 almenn eðlis og 20 mál er varða eftirlit með útlendingum. Flestir þeirra að sækja um dvöl í landinu.
12 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt, af þeim 2 í Sveitarfélaginu Hornafirði, 4 í fyrrum V-Skaftafellssýslu, 4 í Rangárþingi og 2 í Árnesþingi. Einn var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna á Höfn og af öðrum voru höfð afskipti þar sem hann hafði ekið bifreið sinni út í Löngudæli við Stokkseyri. Sá grunaður um ölvun við akstur, gisti fangageymslur á Selfossi og laus eftir skýrslugjöf hjá lögreglu daginn eftir. Þá var vörubifreiðarstjóri kærður fyrir að aka of lengi án hvíldar. Sá stöðvaður á Þjóðvegi 1 við Reykjavík af umferðareftirliti.
Maður gisti fangageymslur eftir að hafa ráfað inn í sumarbústaði í Miðhúsaskógi ölvaður og með óspektir. Yfirheyrður daginn eftir og bar við minnisleysi vegna ölvunar. Vildi leggja sitt af mörkum til að bæta fyrir brot sitt og biðja hlutaðeigandi afsökunar á látunum í sér.