2 Mars 2009 12:00

Leit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að Aldísi Westergren, 37 ára, hefur enn engan árangur borið en síðast er vitað um ferðir hennar við Gvendargeisla í Grafarholti í Reykjavík þriðjudaginn 24. febrúar. Aldís, sem er 165-170 sm á hæð, er með skollitað axlarsítt hár og mögulega klædd í dökkan jakka eða úlpu, dökkar buxur og með svartan og hvítan hálsklút. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir hennar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1100.

Björgunarsveitir hafa aðstoðað við leitina og hafa þær notað bæði kafara og leitarhunda. M.a. hefur verið leitað við Kópavogshöfn, í Fossvogi og við Reynisvatn og þar í nágrenninu. Litlar vísbendingar hafa komið fram um hvar Aldísi kunni að vera að finna. Lögreglan biður nú bæði íbúa og verktaka að svipast vel um í vinnuskúrum og á byggingarsvæðum í Grafarholti og nágrenni, ef ske kynni að þar væri eitthvað að finna sem gæti varpað ljósi á málið.

Meðfylgjandi eru tvær myndir af Aldísi.