27 Maí 2011 12:00

Karl á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 23. júní að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er það gert á grundvelli almannahagsmuna. Þá hefur karl á fertugsaldri hafið afplánun á eftirstöðvum af 2 ára dómi sem hann fékk fyrir að bera eld að húsi.

Báðir mennirnir voru handteknir í Hafnarfirði fyrr í mánuðinum eftir að lögreglu barst tilkynning um líkamsárás. Sá sem fyrir henni varð er karl á þrítugsaldri en hann var með áverka víða á líkamanum og er m.a. nefbrotinn. Talið er að honum hafi verið haldið nauðugum í meira en hálfan sólarhring og að barsmíðarnar hafi farið fram á jafnvel fleiri en einum stað. Á dvalarstað árásarmannanna var lagt hald á bæði fíkniefni og ýmis barefli. Þeir og þolandinn eru allir taldir tengjast  ákveðnum vélhjólaklúbbi.

Sá mannanna sem nú hefur aftur hafið afplánun var talinn hafa rofið almennt skilorð reynslulausnar með aðkomu sinni að áðurnefndu líkamsárásar- og frelsissviptingarmáli.