13 Maí 2011 12:00

Tveir karlar voru handteknir í Hafnarfirði á miðvikudag eftir að lögreglu barst tilkynning um líkamsárás. Sá sem fyrir henni varð er karl á þrítugsaldri en hann var með áverka víða á líkamanum og er m.a. nefbrotinn. Talið er að honum hafi verið haldið nauðugum í meira en hálfan sólarhring og að barsmíðarnar hafi farið fram á jafnvel fleiri en einum stað. Á dvalarstað árásarmannanna, sem eru á þrítugs- og fertugsaldri, var lagt hald á bæði fíkniefni og ýmis barefli. Þeir og þolandinn eru allir taldir tengjast  ákveðnum vélhjólaklúbbi. Við aðgerðina í fyrradag naut lögreglan aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Árásarmennirnir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 20. maí að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þeir hafa kært úrskurðinn til Hæstaréttar.