6 Nóvember 2017 17:22

Vegna fréttar RÚV í gærkvöld um hrottalega líkamsárás á mótum Engjavegar og Gnoðarvogs í Reykjavík aðfaranótt laugardags og aðkomu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu skal upplýst að hún fékk tilkynningu um málið kl. 0.14 umrædda nótt. Fljótlega eftir að lögregla kom á vettvang, kl. 0.20, vaknaði grunur um að viðkomandi hefði orðið fyrir líkamsárás. Var ákveðið að fara með hann strax á slysadeild í stað þess að bíða eftir sjúkrabifreið. Ekki tókst að upplýsa strax hver pilturinn væri, en um leið og það tókst var haft samband við móður hans.

Rannsókn málsins hefur verið í fullum gangi hjá embættinu alla helgina og rætt hefur verið við allmarga í tengslum við hana, auk þess sem kannað er með upptökur úr öryggismyndavélum. Lögreglan biður jafnframt alla þá sem kunna að geta varpað ljósi á málið að hafa samband í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið 0111@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.