20 Mars 2018 14:01

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar líkamsleifar sem fundust á Faxaflóa nýverið, en upphaf málsins má rekja til veiða fiskibáts á norðanverðum Faxaflóa í síðasta mánuði. Báturinn lagði út veiðarfæri á töluverðu dýpi, en þegar dregið var inn reyndust líkamsleifar fylgja með í veiðarfærunum. Skipstjórinn skráði niður staðsetninguna og hafði samband við Vaktstöð siglinga, sem upplýsti lögreglu um málið. Í framhaldinu var skipulagt leitarsvæði og síðan var haldið á vettvang nokkru síðar með búnað sem hæfði aðstæðum, en um flóknar aðgerðir var að ræða. Sérútbúinn kafbátur var sendur niður til að taka ljósmyndir og sónarmyndir, en á sjávarbotninum reyndust vera líkamsleifar. Ekki reyndist unnt að ná þeim upp að svo stöddu enda aðstæður á vettvangi erfiðar, m.a. vegna sjólags og dýpis. Menn urðu því frá að hverfa og sæta færis, en nokkrum dögum síðar var aftur haldið á vettvang og þá tókst að ná upp líkamsleifunum. Við það var notaður annar kafbátur, sem var sömuleiðis sérútbúinn fyrir verkefni af þessu tagi.

Ekki liggur fyrir af hverjum líkamsleifarnar eru og víst að það mun taka einhvern tíma að leiða það í ljós. Sá hluti málsins er í höndum kennslanefndar ríkislögreglustjóra, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun ekki tjá sig frekar um málið á meðan sú niðurstaða liggur ekki fyrir. Aðgerðirnar við að endurheimta líkamsleifarnar voru umfangsmiklar, en við þær naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu góðrar aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunnar, Teledyne og Árna Kópssonar.