9 September 2020 09:45
Það eru því miður allt of mörg ljóslaus ökutæki í umferðinni. Nú þegar dimma tekur ættu ökumenn að fara yfir ljósamál ökutækja sinna svo þeir fari ekki ljóslausir út í umferðina og skapi hættu með því háttalagi. Einnig að sleppa við að eiga á hættu að vera sektaðir fyrir vikið! Sekt fyrir að aka bifreið ljóslausri að framan eða aftan er kr. 20.000.
Margar nýjar bifreiðar eru búnar ljósum sem kvikna þegar bíllinn er ræstur og í fyrstu má halda að um sé að ræða ökuljós en sú er ekki raunin.
Allt of víða má sjá í umferðinni ökumenn nýrra bíla sem gera sér ekki grein fyrir þessu og aka um með takmörkuð ljós og eru jafnvel ljóslausir að aftan. Samkvæmt umferðarlögum ber ökumönnum að hafa kveikt á ökuljósum bæði að framan og aftan þegar bifreið er í akstri. Ábyrgðin er alfarið ökumannsins á að sjá til þess að ljósin séu kveikt.