16 Febrúar 2024 13:31

Síðastliðin miðvikudag afhenti Lögreglan á Norðurlandi vestra Tollgæslunni fíkniefnaleitarhundinn Olly. Olly kemur frá Englandi og er af tegundinni Enskur Springer Spaniel.

Undanfarna mánuði hefur Olly verði í strangri þjálfun á Sauðárkróki og lofar hann mjög góðu. Koma hans til Tollgæslunnar á Íslandi er því mikill fengur fyrir stofnunina en hann mun starfa að mestu á suðvesturhorni landsins.

Olly er einn þriggja hunda sem gefnir eru af ónefndum samtökum sem er þekkt fyrir að láta gott af sér leiða á sviði mannúðar og -menningarmála.  Tveir hundanna eru nú þegar komnir til landsins en auk Olly var Fangelsismálastofnun færður annar hundur sem ber nafnið Tinni, sá er í þjálfun og lofar einnig góðu. Þriðji hundurinn í þessari veglegu gjöf er ókominn til landsins en hann mun fá þjálfun í leit að reiðufé en slíkir hundar hafa reynst afar vel í löndunum í kringum og þá einna helst sem mikilvægir „starfsmenn“ í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Mikil vinna liggur að baki í þjálfun löggæsluhunda og er óhætt að segja að frá því að frá því að Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra tók við málaflokknum á landsvísu árið 2018 hefur ekki verið slegið slöku við. Síðan þá hafa verið afhentir 10 leitarhundar til lögreglu, Tollgæslu og Fangelsismálastofnunnar.

Um leið og við fögnum nýjum félaga þá sendum við þakkir og hlýhug til þeirra sem færðu okkur þessar ómetanlegu gjafir og óskum Tollgæslunni og Fangelsismálstofnun til hamingju með nýja liðsfélaga.