19 September 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík hafði nýverið afskipti af grunnskólanema sem kom með loftbyssu í skólann. Sá hafði skotið á tvo skólafélaga sína og marðist annar þeirra. Hér var um óviljaverk að ræða en engu að síður var byssan gerð upptæk eins og alltaf í málum sem þessum. Loftbyssur eru stórhættulegar og eiga aldrei að vera í höndum barna og unglinga. Í þeim eru plastkúlur sem geta stórslasað fólk.

Sem betur fer eru loftbyssur fáséðar í skólum borgarinnar. Þó koma upp atvik af og til en það heyrir til undantekninga ef kúlurnar hafna í fólki. Í fyrra lagði lögreglan hald á þrjár loftbyssur í jafnmörgum skólum. Vitað er að slíkar byssur hafa verið keyptar í sólarlandaferðum og síðan smyglað til landsins. Rétt er að ítreka við foreldra að loftbyssur eru ekki leikföng heldur öflug vopn sem geta unnið mikinn og óbætanlegan skaða.