26 Janúar 2007 12:00

Fullyrða má að velheppnuð aðgerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi komið í veg fyrir alvarlegt slys í gærkvöld. Málsatvik voru þau að hálfþrítugur karlmaður, sem hefur hefur dvalið á geðheilbrigðisstofnun, stal dráttarbíl á athafnasvæði Samskipa í Reykjavík. Lögreglumenn við eftirlitsstörf urðu hans varir en engin skráningarnúmer voru á dráttarbílnum.

Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum en hann ók Holtaveg, Sæbraut og Reykjanesbraut í gegnum Kópavog og Garðabæ uns hann nam loks staðar á Vífilsstaðavegi. Framan af var dráttarbíllinn á lítilli ferð en þegar komið var á Reykjanesbraut jók ökumaðurinn hraðann en bíllinn var þá mældur á 100 km hraða. Á umræddri leið ók ökumaðurinn gegn rauðu ljósi á nokkrum gatnamótum og stefndi öðrum vegfarendum í mikla hættu.

Lögreglumenn sem fyrstir urðu mannsins varir kölluðu eftir aðstoð félaga sinna þegar ljóst var að ökumaðurinn lét sér ekki segjast. Hárrétt viðbrögð þeirra allra má þakka að ekki fór verr en lögreglan gerði sérstakar ráðstafanir á gatnamótum sem voru á akstursleið dráttarbílsins.

Rétt er að minnast þess að lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu voru sameinuð um síðustu áramót. Frammistaða lögreglumanna á vettvangi í gærkvöld sýnir að vel hefur tekist til því samvinna allra sem að málinu komu var til fyrirmyndar.