11 Mars 2008 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgist sérstaklega með notkun stefnuljósa í umferðinni þessa vikuna. Af því tilefni verður lögreglan m.a. sýnileg á gatnamótum í umdæminu og mun grípa inn í þar sem hún telur þess þörf. Lögreglan leggur áherslu á og brýnir fyrir ökumönnum að hætta og óþægindi geta skapast þegar stefnuljós eru ekki notuð.  Um merki og merkjagjöf er fjallað í 31. gr. umferðarlaga en þar segir:

„Þegar nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir eða afstýra hættu skal ökumaður gefa hljóð- eða ljósmerki eða á annan hátt vekja athygli annarra vegfarenda á hættunni. Merki skal gefa þannig, að sem minnstum óþægindum valdi, og ekki að nauðsynjalausu. Hljóðmerki í tengslum við framúrakstur má einungis nota utan þéttbýlis. Hljóðmerki má eigi nota lengur en nauðsyn ber til. Þegar myrkur er skal ökumaður vélknúins ökutækis gefa ljósmerki í stað hljóðmerkis, nema um yfirvofandi hættu sé að ræða. Ljósmerki skal gefa með því að blikka háljósum eða lágljósum.

Ökumaður, sem ætlar að aka frá brún vegar, beygja, snúa eða skipta um akrein, skal gefa merki öðrum til leiðbeiningar. Sama á við um akstur til hliðar á vegi, nema um óverulega breytingu á akstursstefnu sé að ræða. Merkið skal gefa með stefnuljósi, þegar ökutækið skal búið slíku ljósi, en annars með því að rétta út hönd.

Ökumaður, sem ætlar að stöðva ökutæki eða draga snögglega úr hraða þess, skal gefa merki öðrum til leiðbeiningar. Merkið skal gefa með hemlaljósi, ef ökutækið skal búið slíku ljósi, en annars með því að rétta upp hönd.

Merki skv. 2. og 3. mgr. skal gefa tímanlega og á greinilegan og ótvíræðan hátt, áður en stefnu ökutækis er breytt, snögglega dregið úr hraða þess eða það er stöðvað. Merkjagjöf skal hætt, þegar hún á ekki lengur við.

Merkjagjöf leysir ökumann ekki undan varúðarskyldu.“