6 Október 2014 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á um hálft kíló af amfetamíni í umfangsmiklum aðgerðum í síðasta mánuði. Fjórir karlar á þrítugsaldri voru handteknir í tengslum við málið og úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Lögreglan tók einnig í sína vörslu á annan tug gramma af MDMA, auk stera og umtalsverða fjármuna, sem taldir eru vera tilkomnir vegna fíkniefnasölu.
Upphaf málsins var á þann veg að lögreglumenn voru við sérstakt fíkniefnaeftirlit þegar þeir handtóku karl á þrítugsaldri í miðbæ Hafnarfjarðar, en við leit á honum fundust um 30 gr. af amfetamíni. Skammt frá var hálffertugur karl einnig handtekinn, en sá hugðist taka við fíkniefnunum. Í framhaldinu var framkvæmd húsleit hjá fyrrnefnda manninum og fannst þá tæplega hálft kíló af óblönduðu amfetamíni, auk MDMA, stera og fjármuna, sem áður var minnst á. Maðurinn var grunaður um innflutning fíkniefnanna og var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þrír aðrir karlar, einnig á þrítugsaldri, voru sömuleiðis handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald, en mennirnir voru grunaðir um skipulagningu, fjármögnun og innflutning fíkniefnanna til landsins. Alls voru framkvæmdar sex húsleitir í þágu rannsóknarinnar, fimm á höfuðborgarsvæðinu og ein á Vesturlandi, en um tugur manna var yfirheyrður vegna málsins. Fjórmenningarnir eru nú lausir úr haldi lögreglu og telst málið upplýst.
Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.